Atypical
Það eru þættir á Netflix sem heita Atypical sem fjalla um einhverfa unglinginn Sam og allt hans nærumhverfi.
Þegar ég byrjaði að horfa á fyrsta þáttinn þá upplifði ég pirring og reiði, því ég hélt að þarna væri enn einn þátturinn þar sem verið væri að nota einhverfu sem aðhlátursefni fyrir neurotypical eins og í svo mörgu öðru sjónvarpsefni. Það veldur mér alltaf reiði þegar raunverulegir erfiðleikar einstaklinga eru notaðir sem skemmtiatriði fyrir aðra. Frá því ég man eftir mér þá hefur það valdið mér vanlíðan og ég hef goldið fyrir það.
Í mínum huga er Atypical samt alls ekki þannig þáttur og ég tengi við svo rosalega margt sem Sam er að ganga í gegnum. Ég get ekki sagt að þetta sé nákvæm lýsing á því hvernig ég upplifið mína skólagöngu en það eru fullt af atriðum sem eru svipuð.
Ég held að þessir þættir hafi hjálpað mér að skilja mig betur sem einhverfan einstakling, bæði út á við og inn á við.
Sam fær að vera einhverfur
Sam er þarna með fólk í kringum sig, fjölskyldu og vini, sem þekkja hann sem einhverfan einstakling og samþykkja hann þannig eins og hann er. Þó svo að þau séu ekkert alltaf sammála honum, þá eru þau ekki reyna að breyta honum í eitthvað sem hann er ekki né að gera þær kröfur að hann sé eitthvað sem hann er ekki. Þau leyfa honum að vera hann sjálfur þó það flokkist sem öðruvísi, ásamt því að sína honum tillitssemi.
Mér finnst aðal boðskapurinn í þessum þáttum vera að sýna tillitsemi til fjölbreytileikans og að taka upp hanskan fyrir þá sem þurfa á því að halda þegar öðrum finnst í lagi að gera grín að þeim sem eru öðruvísi, eru í minnihluta. Að taka upp hanskann fyrir þá sem eru EKKI það sem samfélagið kallar „normal“ og sýna því raunverulegan skilning og stuðning í stað þess að gera grín að því.
Þegar kærasta Sam kom því í gegn að skólaballið yrði „silent dance“ svo að Sam gæti komið á ballið, þá var hún raunverulegur vinur sem samþykkir hann og stendur með honum eins og hann er. Ég held að svona vinir séu reyndar sjaldgæfir en vonandi eru þeir þó til, allavega átti ég aldrei svona vin þegar ég var í skóla.
Hann veit af hverju hann er öðruvísi
Annað atriði sem mér finnst koma sterkt fram þarna og mér finnst vera mikilvæt. Það er að Sam veit að hann er einhverfur og að það sé ástæðan fyrir því að hann er öðruvísi og að hann glími við óhefðbundin vandamál. Það er akkúrat þess vegna sem einhverfugreining er svo mikilvæg. Ég vildi að ég hefði vitað af einhverfunni hjá mér þegar ég var barn og unglingur, því ég skildi ekki af hverju ég upplifði mig alltaf öðruvísi og þar af leiðandi hélt ég svo oft að það væri mér að kenna.
Verð samt að nefna að það er eitt atriði sem mér finnst eiginlega vanta í þessa þætti, en það er það sem er stundum kallað „meltdown“ eftir álag. Það er algengt hjá einhverfum að þeir hafa kannski náð að komast í gegnum ákveðið áreiti og halda andlitinu, þannig að þeir líta kannski út fyrir að ráða við aðstæðurnar og áreitið. En raunin er sú að þegar heim er komið þá fer allt í steik, þá brotnar einstaklingurinn niður, öskrar, grætur, sparkar eða eitthvað allt annað. Því hann verður að koma spennunni sem safnaðist upp að innan verðu, út úr líkamanum til að ná jafnvægi í taugakerfinu. Þetta er eins og að halda í sér allan daginn (því aðstæðurnar krefjast þess) alveg þar til komið er heim aftur í öryggið og þá er hægt að sleppa.