Uppgötvun á nýrri leið
Fyrir tíu dögum síðan breyttist líf mitt á ótrúlegan hátt og ég fann nýtt ljós. Ég uppgötvaði nýja leið sem raunverulega hjálpaði mér að finna styrkinn minn og öðlast trú á sjálfri mér.
Þetta er alls ekki á neinn hátt trúarlegt, heldur nota ég þessa lýsingu út frá því að ég fann ljós í myrkrinu. Mér finnst eins og ég sé búin að vera í myrkri geðrænna vandamála í mörg ár. Ég verð samt að taka fram að það er ekki þannig að þetta hafi bara „læknað mig“ af öllu geðrænu vandamálunum mínum, heldur fann ég þessa trú á sjálfa mig að ég geti komist í gegnum þetta og að það sé möguleiki fyrir mig að líða vel, þó ég sé ekki komin þangað ennþá (ég var eiginlega búin að gefa það upp á bátinn að mér gæti nokkur tímann liðið vel).
Þar sem ég er hrifin af máltækjum þá á þetta vel við hér „trúin flytur fjöll“ og þá á ég ekki við um trú sem trúarbrögð heldur það að trúa á sjálfan sig.
Það sem gerðist er svo ótrúlegt að ég næstum trúi því varla sjálf að þetta hafi gerst. Á tveimur klukkustundum breyttist eitthvað í hausnum á mér meira en í allri annarri meðferð sem ég hef farið í og eru þær alveg ansi margar, en allar í þeim tilgangi að reyna að hjálpa mér með geðrænu vandamálin mín (þunglyndi, kvíða, PTSD) en það hefur ekkert virkað eins og þetta gerði. Hér eru þær meðferðir sem ég man eftir akkúrat núna: samtalsmeðferðir, hópmeðferðir, HAM meðferðir, margar mismunandi lyfjameðferðir, ECT meðferðir, TMS meðferðir og CPT meðferð. Mig langar samt að nefna að samtalsmeðferðirnar sem ég er í núna hafa hjálpað mér mjög mikið í því að létta á flækjunum í hausnum á mér en samt á öðruvísi hátt en þetta gerði. Þessar samtalsmeðferðir eru kannski grunnurinn að því að ég var tilbúin í þessa tilteknu meðferð, allavega kom hugmyndin að þessari meðferð út frá annarri tillögu hjá samtalsmeðferðaraðila sem ég er hjá núna.
Jæja, þetta er nóg um aðdragandann.
„9D breathwork“
Það sem ég fór í kallast „9D breathwork“ og ég myndi kalla öndunar hugleiðsla eða öndunar hugleiðslu ferðalag. Ég fór í þetta í einkatíma heima hjá manneskju sem ég hafði aldrei áður hitt og ég vissi í raun ekkert hvað myndi gerast þarna eða hvað ég væri að fara út í.
Þetta var gígantískt skref út fyrir þægindarammann hjá mér að mæta á ókunnan stað og hitta ókunnuga manneskju, en líka það að fara að gera eitthvað sem er svona persónulegt. Opna mig með mína veikleika við manneskju sem ég er að hitta í fyrsta skipti. Það voru allir varnarpartarnir mínir á yfirsnúningi en einhverra hluta vegna þá lét ég það ekki stoppa mig þarna. Ég þurfti að deila með henni að ég væri að glíma við ýmis geðræn vandamál ásamt því að deila áfallasögu minni. Ég lét hana auðvitað líka vita að ég væri einhverf en ég skilgreini einhverfuna mína ekki sem geðrænt vandamál heldur sem hluta af mér og mínum persónuleika.
Hún útskýrið fyrir mér hvernig þetta færi fram og kenndi mér tæknina við öndunina. Ég hélt þetta yrði meira þvinguð öndun og ákafari en raunin var. Þetta er djúp þindaröndun með auka viðbót upp í bringuna og sleppa svo, en ekki þrýsta loftinu út á útönduninni. Þindaröndun er mér mjög eðlisleg og hefur verið frá því ég var unglingur þannig að öndunar-hlutinn var ekki svo erfiður fyrir mig. Hún sagði mér líka að það væri mjög mismunandi hvernig fólk bregst við í svona öndunar ferðalagi og öll viðbrögð væru eðlileg og mættu koma fram, eins og t.d. grátur, vöðva-herpingur, að hristast og jafnvel öskra. Eftir á fannst mér mjög gott að hafa heyrt þetta fyrir fram því þá þurfti ég ekki að halda aftur að mér í því sem ég upplifði og hvernig líkaminn brást við. Það er líka mismunandi hvernig fólki gengur að ná taki á önduninni en maður á samt ekki að hafa áhyggjur þó að öndunin sé ekki fullkomin. Einnig er mismunandi hversu djúpt fólk nær að fara, en ég fór víst frekar djúpt (var mér sagt, en ég hef auðvitað ekkert viðmið).
Hugleiðslan er síðan öll leidd í gegnum sérstök heyrnartól og fer fram á ensku. Mér fannst eins og hljóðin færu í hringi í kringum hausinn á mér en væru ekki bara kyrr og jöfn í báðum eyrum og það er einhver ákveðin tíðni á hljóðunum.
Ég sem sagt leggst á gólfið þarna hjá henni á gæru, fæ augnhvílu fyrir augun og heyrnartól. Þetta byrjar bara með venjulegri öndun og að slaka á, en svo hefst ferðalagið. Þindaröndunin tekur við og það er rödd sem leiðir mann áfram í djúpa hugleiðslu, en það er ekki bara ein rödd sem heyrist því það eru fleiri raddir sem eru eins og í bakgrunninum og það eru ekki bara raddir sem heyrast heldur einnig hljóð sem ég get ekki alveg lýst.
„Letting go and moving on“
Það eru mismunandi hugleiðslu ferðalög í boði, en það sem ég fór í þarna hét „Letting go and moving on“. Ég upplifið þetta nokkurn veginn eins og þetta væri í veimur hlutum, þar sem fyrri hlutinn var að finna og upplifa sársaukann minn og seinni hlutinn var síðan að finna styrkinn minn.
Fyrri hlutann upplifði ég eins og bylgjur, þar sem skipst var á að fara ofan í víti sem var skelfilegt og síðan aðeins upp. Ég man ekki alveg hvað bylgjurnar voru margar en held þær hafi verið a.m.k. fimm. Ofan í vítunum leið mér skelfilega og ég fór að hágráta, ég titraði öll, sérstaklega í efri hluta líkamans. Þetta var svo sárt og á einhverjum tímapunkti vildi ég að þetta myndi bara hætta, að ég gæti ekki meira. Ég vissi allan tímann að ég gæti alveg hætt sjálf, ég gæti tekið af mér heyrnatólin og stoppað þetta, en ég gerði það ekki. Ég notaði alla mína krafta í það að halda áfram þindarönduninni og fara í gegnum þessar skelfilegu niðurbylgjur, sem fóru alltaf neðar og neðar. Á einhverjum tímapunkti barði ég með báðum hnefunum í gólfið því þetta var svo sárt og erfitt.
Seinni hlutinn var ekki svona sársaukafullur en samt erfiður að hluta til, með miklum tilfinningum og því fylgdu líka tár en það voru kærleiks- og vonartár. Og það var þarna sem ég fann hluta af sjálfri mér sem ég var alveg búin að týna.
Þegar þessu lauk þá þurfti ég að finna með höndunum fyrir sjálfri mér með því að snerta höfuðið á mér og andlitið, hljómar örugglega einkennilega en ég þurfti að finna að ég væri örugglega þarna í líkamanum.
Eitthvað mikið hafði breyst
Síðan þegar ég settist upp fann ég að eitthvað mikið hafði breyst, því ég var að upplifa eitthvað sem ég veit ekki hvort ég hafi nokkur tímann upplifað áður. Þetta var mjög furðulegt og ókunnuglegt og ég vissi eiginlega ekki hvernig ég ætti að vera. Raddirnar í hausnum á mér sem eru búnar að vera að beita mig andlegu ofbeldi síðan ég man ekki hvenær, þær hafa alltaf verið yfirgnæfandi og ég hef aldrei haft neina stjórn á þeim þó ég hafi mikið reynt með mörgum mismunandi aðferðum, voru allt í einu orðnar að pínu lítilli hrúgu og einhvern veginn fyrir aftan mig. Ég prófaði að brosa pínu og ég fékk ekki skammir fyrir það eins og gerðist nánast alltaf. Það kom sjálfvirk hugsun upp í hausinn á mér sem sagði „ég get“. Ég held að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem ég fæ þessa hugsun svona sjálfkrafa. Þetta var ekki hugsun sem var þvinguð eins og er gert í sumum meðferðum. Að maður eigi að þvinga sjálfan sig til að hugsa eitthvað jákvætt þó að maður trúi ekki hugsuninni og með því að hugsa þetta jákvæða nógu oft þá fari maður að trúa hugsuninni sjálfkrafa, þannig að maður er eiginlega að heilaþvo sjálfan sig, en sú aðferð hefur einhverra hluta vegna aldrei virkað hjá mér. Þarna var þessi „ég get“ hugsun sem sagt ekki þvinguð á nokkurn hátt og ég trúði líka hugsuninni. Það fylgdu engar skammir frá neinum röddum og engin gagnrýni á það að ég hefði verið liggjandi þarna á gólfinu hágrátandi, skjálfandi og hefði lamið í gólfið. Þetta var einhvern veginn bara í lagi.
Þessi öndunar hugleiðsla tók einn klukkutíma og 20 mínútur. Mér fannst eins og þetta hefði verið á bilinu einn og hálfur tími til tveir tímar og ég upplifði þetta sem langt á meðan á því stóð, en þetta var alveg margfalt þess virði eftir á.
Á þessum 10 dögum sem liðnir eru síðan ég fór í þetta þá hefur svo margt verið öðruvísi og óvenjulegt. Stundum hef ég farið að efins um hvort þetta sé raunverulegt eða kannski bara draumur, en þetta er ekki draumur heldur virkilega raunverulegt.
Hér eru nokkur atriði sem breyttust:
- ég hef trú á sjálfri mér
- að ég sé nógu sterk til að ég geti komist yfir þessi veikindi
- ég hef trú á því að ég geti fundið út hver ég raunverulega er
- ég get brosað án þess að fá skammir
- ég get séð sjálfa mig í spegli án þess að finna fyrir hatri og heyra raddir segja ógeðslega hluti við mig
- ég finn ekki fyrir líkamlegum sársauka þegar einhver segir eitthvað jákvætt um mig
- ég trúi því að mér geti liðið vel en ekki bara skárr til að geta komist í gegnum lífið á „survival mode“
- það veldur ekki líkamlegum sársauka að segja þessa setningu „að mér geti liðið vel“
Ég er búin að finna þarna leið sem hjálpar mér og það er enginn sem getur tekið þá vitneskju frá mér. Það er samt ekki þannig að ég haldi að lífið geti verið bara dans á rósum, heldur finnst mér ég hafa fundið styrkinn minn sem þarf til að geta tekist á við erfiðleika. Andlegu vandamálin eru ekki búin og afgreidd fyrir fullt og allt, ég veit að ég á mikla vinnu fyrir höndum en ég trúi núna að ég geti unnið þessa vinnu því hún sé þess virði.
Þessi öndunar hugleiðsla gaf mér líka kjarkinn til að opna heimasíðuna fyrir umheiminum og hafa hana ekki bara læsta fyrir öllum nema mér.
Fyrir þá sem hafa áhuga á að skoða þetta þá mæli ég með Söru og heimasíðunni hennar Sjálfið. Þar eru ýmsar upplýsingar og hægt að skrá sig bæði í hóptíma í 9D breathwork og online tíma í gegnum zoom.
Í framhaldi af öllu þessu og öllum þeim meðferðum sem ég hef farið í bæði út frá heilbrigðiskerfinu og ýmsu öðru, þá spyr ég af hverju er þetta ekki í boði innan heilbrigðisþjónustunnar eða auglýst sem „meðferð“ eða leið í því að vinna með geðræn vandamál, því þarna fann ég í fyrsta skipti eitthvað sem raunverulega hjálpaði mér?