Innri átökin
Ég var að uppgötva IFS sem stendur fyrir „Internal Family Systems“ og snýst um átökin sem eiga sér stað innan í manni og eru úr mörgum áttum.
Hér er myndband þar sem Dr. Richard Schwartz útskýrir IFS kerfið í mjög stuttu máli.
Í mínum huga er þetta eiginlega andstæða við HAM (hugræna atferlismeðferð), en HAM hentar mér alls ekki.
Fyrir nokkrum dögum var mér bent á bók sem er nokkurs konar sálfræðileg-sjálfshjálpar bók og heitir „No Bad Parts“ eftir Dr. Richard Schwartz, en hann er upphafsmaðurinn að IFS. Áður en ég byrjaði á þessari bók vissi ég ekkert um IFS en strax í fyrsta hluta bókarinnar þá hugsaði ég, þetta er akkúrat svona sem ég upplifi í hausnum á mér, að þetta er ekki bara ein rödd heldur margar raddir að takast á.
Hugleiðslur
Í bókinni er farið í hvað IFS er og hvernig það virkar, en einnig eru margar hugleiðslu æfingar og ég hef á tilfinningunni að það sé mun betra að hlusta á þær æfingar en að lesa þær, því þá kemst maður beint inn í hugleiðsluna. Bókina má finna hér á Storytel.
Enn sem komið er þá finnst mér þessar hugleiðslur vera að hjálpa, en ég er auðvitað bara búin að vera að gera þær í nokkra daga.
Ef ég ber þessa aðferð saman við HAM og hvernig mér gekk að gera HAM verkefnin þá eru þessar hugleiðslur miklu auðveldari fyrir mig og einhvern veginn réttari fyrir mig. Á meðan HAM var alltaf eins og þvingun í eitthvað sem var ekki rétt fyrir mig.
IFS og einhverfa
Í dag fór ég síðan að leita að upplýsingum um IFS og einhverfu og allt sem ég hef fundið hingað til hefur verið mjög áhugavert. Þar á meðal um það hvernig mismunandi partar takast á hjá einhverfum. Til dæmis það að fara út og hitta einhvern, manni langar kannski að fara út en þá kemur einn partur sem tengist öllu áreitinu og annar partur sem tengist slæmum fyrri upplifunum. Þannig að út frá einhverfunni koma eins og auka hlekkir inn í dæmið, en einhverfan sem slík er samt ekki stakur partur. Svo bætist ADHD líka inn í hjá mér, en ofvirknin er mikil í hausnum og þetta verður því talsvert yfirþyrmandi. En ég stefni á að fara betur yfir þetta seinna.