Geðræn vandamál

Prósentur í geðrænum vandamálum
Vinda ofan af skömminni

Þetta er sérstaklega erfitt viðfangsefni því skömmin er svo mikil og yfirþyrmandi. En ég ætla að reyna að vinda aðeins ofan af þeirri flækju sem tengist þessari tilteknu skömm hjá mér.

Upphafið að þessum pælingum mínum kviknaði um daginn þegar ég var að lesa (bara vegna forvitni) þingsályktunartillögu frá árinu 2023 um atriði sem tengist geðheilsu og þar kom fram að um 60.000 einstaklingar á Íslandi glími við geðræn vandamál.

Samkvæmt Hagstofu Íslands þá var heildarfjöldi á Íslandi 375.218 einstaklingar árið 2023. Ef um 60.000 af 375.000 glíma við geðræn vandamál þá eru það heil 16%.

Þannig að ég fór að hugsa um 100 manns í kringum mig (fjölskyldu og vinafólk) og miðað við þessar tölur þá eru 16 af þeim að glíma við geðræn vandamál. Þetta er miklu hærri tala en sá fjöldi sem er t.d. í gifsi vegna beinbrots eða með flensu, en samt líður mér svo oft eins og ég sé ein með þessi vandamál því þetta er eitthvað svo mikið „tabú“.

Geðheilsa og einhverfa

Við þetta bætist síðan að geðræn vandamál eru miklu algengari á meðal einhverfra.

Samkvæmt gögnum á heimasíðu National Library of Medicine frá árinu 2019 eru líkur á þunglyndi fjórum sinnum meiri hjá einhverfum miðað við óeinhverfa og að um 40% einhverfra fullorðinna glími við þunglyndi (í Bandaríkjunum):

A recent meta-analysis¹ found that individuals with ASD are approximately four times more likely to experience depression compared to the general population when age ranges are pooled. Significantly elevated lifetime depression rates in ASD are associated with:

  • Increasing age (40.2% in adult samples vs 7.7% in samples < 18 years old)
  • Average to above average IQ (52.8% vs 12.2% when mean IQ is below average)
  • Structured interviews to assess depression (28.5% vs 6.7% for other assessment instruments)
  • Self-report (48.6% vs 14.4% via caregiver report)
Kynjamunur

Ofan á þetta allt bætist einnig við kynjamunur, þar sem það eru meiri líkur á geðrænum vandamálum hjá kvenkyns en karlkyns.

Hér í töflunum fyrir neðan er smá útdráttur úr niðurstöðum sænskrar rannsóknar* sem gerð var á árunum 2021-2022, þar sem heildarfjöldi einstaklinga var 1.335.753 og á aldrinum 16-24 ára. Þar af voru um 1,6% (20.841 einstaklingur) með einhverfugreiningu.
Þetta er einnig af heimasíðu National Library of Medicine.

Hér er prósentuhlutfall þess fjölda sem glímdu við geðræn vandamál óháð kyni, hlutfall einhverfra borið saman við óeinhverfa.

  Non-autistic Autistic
Any psychiatric disorder 10,9% 50,8%
Anxiety disorders 3,9% 20,6%
Depressive disorders 3,9% 22,7%
Sleep disorders 5,1% 30,7%

Hér fyrir neðan er prósentuhlutfall innan hverrar einingar, bæði út frá kyni og einhverfu.

  Male Female
  Non-autistic Autistic Non-autistic Autistic
Any psychiatric disorder 8,6% 44,9% 13,4% 62,2%
Anxiety disorders 2,5% 14,7% 5,4% 31,9%
Depressive disorders 2,6% 18,4% 5,2% 31,0%
Sleep disorders 4,2% 27,0% 6,1% 37,8%

Þarna sést m.a. að af þeim kvenkyns einstaklingum sem voru með einhverfugreiningu voru 62,2% þeirra að glíma við einhver geðræn vandamál á móti 13,4% óeinhverfra kvenna og 44,9% einhverfra karla.

Þannig að af hverju upplifi ég svona mikla skömm yfir því að vera að glíma við geðræn vandamál og af hverju finnst mér ég alltaf þurfa að fela þetta, á sama tíma og það eru svona margir að glíma við þessi geðrænu vandamál?

Opna mig um mína geðheilsu

Í framhaldi af þessu þá langar mig að reyna eins og ég treysti mér til, að tala hér á þessari síðu opið um mín geðrænu vandamál sem fylgja einhverfunni. Því að mér finnst að ég eigi ekki að þurfa að skammast mín fyrir eitthvað sem er svona algengt. Líka kannski af því að það var ekki ég sem valdi það að glíma við þetta og geðræn vandamál eru heldur ekki afleiðingar af einhverju sem ég gerði rangt.

Mig langar að nefna að ég á eina ótrúlega hugrakka frænku sem er aðeins yngri en ég, hún hefur einnig verið að glíma við geðræn vandamál. Ástæðan fyrir því að mig langar að nefna hana er sú að hún hefur opnað sig svo mikið um sín veikindi á samfélagsmiðlum og ég hef litið upp til hennar fyrir hugrekkið sem hún sýnir með því að þora að segja frá. Ég trúi því að það sem hún er að gera með því að deila sinni reynslu sé hjálplegt fyrir alla sem glíma við geðræn vandamál, allavega hefur það hjálpað mér. Hennar hugrekki á hlut í og var hvatning fyrir mig í því að þora að setja upp þessa heimasíðu og opna mig varðandi einhverfuna og geðheilsuna mína.
Þannig að takk kæra frænka.

Hér opinbera ég það sem sagt að ég hef verið að glíma við þunglyndi nánast allt mitt líf, allavega frá því ég var u.þ.b. 13 ára og jafnvel fyrr. En kannski ekki þannig að ég sé búin að vera í samfelldu þunglyndi síðan þá, heldur hefur þetta verið í bylgjum þar sem ég hef átt bæði góð tímabil og skelfileg tímabil. Ég hef líka glímt við kvíða frá því ég man eftir mér og síðan bættist áfallastreituröskun (PTSD) ofan á. Það er samt ekki þannig að ég geti sagt að eitthvað ákveðið atriði sé eingöngu vegna þunglyndisins og eitthvað annað atriði sé eingöngu vegna PTSD, heldur fléttast þetta allt saman eða leggst ofan á hvert annað.

Breytt framkoma vegna geðheilsu

Slæm reynsla mín af geðrænum veikindum er ekki eingöngu út af veikindunum sjálfum, heldur líka vegna ýmissa annarra þátta sem orsakast eingöngu vegna þess að þetta eru geðræn veikindi en ekki líkamleg veikindi. Bæði almennt en líka frá heilbrigðisstarfsfólki sem hefur t.d. dæmt mig fyrir það að vera á þunglyndislyfjum. Ég er samt alls ekki að setja allt heilbrigðisstarfsfólk undir sama hatt, því það er fullt af góðu heilbrigðisstarfsfólki og er ég t.d. svo heppin að vera núna hjá frábærum lækni og hjúkrunarfræðingi. En ég hef samt of oft fengið breytta framkomu gagnvart mér um leið og ég svara því á hvaða lyfjum ég sé, þó svo að lyfin mín tengist málinu ekki á neinn hátt (t.d. hjá tannlækni og á læknavakt vegna sýkingar).

 

* Tölurnar sem ég tók saman hér eru miðaðar við það sem ég glími við.
En í þessari sænsku rannsókn koma fram mörg önnur atriði sem eru áhugaverð þar sem munurinn á milli einhverfra og óeinhverfra er margfaldur.

Viltu fá tilkynningar um nýjar færslur?

Skráð netfangið þitt hér og þú færð sendan tölupóst þegar nýjar færslur bætast inn á síðuna.

Tilkynningar eru sendar u.þ.b. 1-2 í mánuði en ekki þegar hver stök færsla kemur inn.

Takk fyrir skráninguna

Þú færð sendan tölvupóst þar sem þú þarft að staðfesta netfangið þitt.

ATH! pósturinn getur lent í ruslpósti.

Yfirlit
Einhverf panda

Þessi vefsíða notar vafrakökur svo að hægt sé að veita þér betri upplifun á vefsíðunni. Upplýsingar um vafrakökur eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðuna og hjálpa vefsíðunni að skilja hvaða hlutar vefsíðunnar þér finnst áhugaverðastir og gagnlegastir.

Nauðsynlegar vafrakökur

Nauðsynlegt vafraköku ætti að vera virkt á öllum tímum svo að við getum vistað stillingar þínar fyrir vafrakökur.