Ég á afmæli á morgun og hvað ætli mig langi helst að fá í afmælisgjöf?
Það sem mig langar í mest af öllu er ekki einhver hlutur. Það er ekki eitthvað sem hægt er að kaupa eða búa til. Það er ekki heldur hægt að pakka þessu inn eða skreyta.
Það sem mig langar í er þetta:
- að vera samþykkt eins og ég er
- að mér sé trúað þegar ég segi frá minni upplifun á heiminum
- að ekki sé gert grín að því sem er óvenjulegt eða furðulegt hjá mér
- að það sé í lagi að ég geri hlutina á minn hátt
- að fá að taka það pláss og þann tíma sem ég þarf
- að mega hafa mína skoðun á hlutunum án lítillækkunar
- að vera ekki flokkuð sem félagsskítur þegar ég vil ekki taka þátt í einhverju af því mér þyki það óþægilegt eða leiðinlegt, þó svo öllum öðrum finnist það skemmtilegt
- að tekið sé tillit til þess sem veldur mér vanlíðan, jafnvel þó að það hljómi furðulegt eða öðrum finnist vera smáatriði, ég væri ekki að segja að eitthvað ylli mér vanlíðan ef það væri bara smáatriði hjá mér
- að fólk sjái kostina mína en ekki bara vandamálin og gallana
- að fá að vera bara eins og ég er án þess að einhver vilji breyta mér
Ég er ekki að biðja um að það sé tiplað á tánum í kringum mig, alls ekki. Heldur að þó að einhverjum finnist ég furðuleg og skilji ekki mína upplifun á umhverfinu eða skilji ekki hvernig heilinn hjá mér virki, þá hafi ég samt rétt á því að komið sé fram við mig af virðingu alveg eins og alla aðra einstaklinga.
Ég held reyndar að þessi atriði geti átt við mjög marga einhverfa einstaklinga og aðra sem tilheyra minnihlutahópum og von mín er sú að einhvern daginn verði heimurinn þannig að allir komi fram við alla af virðingu.
Ég vil taka fram að með þessu er ég alls ekki að segja að ég fái neikvætt viðmót í tengslum við þessi atriði frá öllum í kringum mig.