Grátur

Grátur
Skömm yfir því að gráta

Mér finnst alltaf eins og það sé svo rosalega neikvætt og mikil skömm yfir því að gráta. Að gráta geri mann einhvern veginn að minni manneskju eða að maður sé að sýna á sér veikleika sem maður ætti að fela.

Út frá mannlegu eðli þá er eitthvað sem triggerast við það að heyra ungabarn gráta og þar er tilgangurinn sá að barnið þarf á einhverri umönnun að halda. Það er ekki bara gráturinn sem slíkur sem þarf að stoppa heldur er alltaf eitthvað á bakvið grátinn. Barnið getur ekki sagt í orðum hvað sé að og er gráturinn því tjáningarleið barnsins.

Þegar við erum orðin eldri og getum tjáð okkur með orðum þá hættum við samt ekki að gráta og ég held að sá grátur sé ekki lengur bara til þess að gefa öðrum til kynna að eitthvað sé að.

Grátur er losun

Á einhvern hátt er grátur eins og losun um eitthvað hjá mér. Á sama hátt ef ég held aftur að mér að gráta þá safnast þetta upp sem hefði annars losnað ef ég hefði grátið. Þannig að ef ég leyfi mér að gráta þá hjálpar það mér

Ég upplifi oft eins og að með því að hugga bara grátinn þá sé allt búið og þess vegna sé nauðsynlegt að hugga grátinn. Eins og það sé gráturinn sjálfur sem sé vandamálið hjá einstaklingnum, en ekki það sem er á bak við grátinn. Af því að gráturinn er það sem við sjáum og heyrum og það er óþægilegt að sjá og heyra einhvern gráta. Þetta er eitthvað sem ég hef líka gert t.d. gagnvart mínum börnum.

En hvað ef maður horfir ekki á grát sem neikvæðan hlut heldur að þetta sé bara náttúruleg leið líkamans til að losa um spennu. Þannig að ef einhver þarf að gráta þá sé bara betra að leyfa einstaklingnum að gráta og vera ekkert að reyna að stoppa grátinn, en vera bara til staðar fyrir einstaklinginn ef hann þarf á því að halda.

Ég er samt ekki að segja að það sé gott að líða svo illa að maður þurfi að gráta, heldur að þegar manni líður svona illa að þá hjálpi það að leyfa sér að gráta, að það sé í raun bara hollt og gott fyrir líkamann að gráta.

Gæti verið að með því að stoppa grát hjá öðrum þá sé í raun verið að gera illt verra og næstum eins og að pína einstaklinginn til að halda inn í sér því sem þarf að komast út.

Ég er eiginlega pínu fegin að vera kvenkyns því að ég held að það sé ennþá erfiðara fyrir karlkyns að gráta.

Ég er búin að gráta mikið

Undanfarnar vikur er ég búin að vera í mikilli sjálfsvinnu og á þessum tíma hef ég grátið mjög mikið. Í þessari sjálfsvinnu hef ég verið að vinna í því að finna fyrir öllum tilfinningum í stað þess að reyna að þvinga tilfinningarnar í burtu. Í flestum af þeim meðferðum sem ég hef farið í (þar á meðal HAM) þá er verið að vinna í því að ýta þessu öllu í burtu eða deyfa tilfinningarnar með t.d. lyfjum. En þessar aðferðir hafa lítið sem ekkert hjálpað mér til lengri tíma litið.

Núna þegar ég er að fara þveröfuga leið og mæta tilfinningunum og finna fyrir þeim öllum á djúpan hátt, taka þeim með opnum örmum í stað þess að reyna að berjast við þær þá held ég að það sé að virka betur. Ég veit samt auðvitað ekki hver langtíma verkunin verður fyrr en eftir einhver ár og get því ekki sagt hvort þetta virki eða ekki. Tilfinningin mín er samt sú að þetta sé að virka, líka að bara að leyfa mér að gráta þegar ég þarf að gráta, sé að hjálpa mér að losa um allt þetta sem ég hef haldið inn í mér og hefur verið að safnast upp frá því ég var krakki.

Grátur og hlátur

Máltækið „oft kemur grátur eftir skellihlátur“ var oft notað þegar ég var lítil.

Í mínum huga er það að hlæja og gráta mjög svipað, en þetta bæði er eitthvað sem er innra með okkur og þarf að komast út. Það er skemmtilegra að hlægja en að gráta, en ég held að það sé jafn erfitt að halda inn í sér hlátri og gráti og jafn mikilvægt að leyfa þessu að koma út.

Annað sem er líka sameiginlegt með gráti og hlátri, en það er að hvoru tveggja er bundið tilfinningum. Ég er samt ekki að meina þegar maður hlær að grínmynd í sjónvarpi eða fær tár í augun út af einhverju sorglegu í sjónvarpi. Heldur þegar maður hlær af því að maður upplifir gleði og léttleika í tilfinningunum á sama hátt og maður grætur þegar maður upplifir sorg og erfiðleika í tilfinningunum.

Viltu fá tilkynningar um nýjar færslur?

Skráð netfangið þitt hér og þú færð sendan tölupóst þegar nýjar færslur bætast inn á síðuna.

Tilkynningar eru sendar u.þ.b. 1-2 í mánuði en ekki þegar hver stök færsla kemur inn.

Takk fyrir skráninguna

Þú færð sendan tölvupóst þar sem þú þarft að staðfesta netfangið þitt.

ATH! pósturinn getur lent í ruslpósti.

Yfirlit
Einhverf panda

Þessi vefsíða notar vafrakökur svo að hægt sé að veita þér betri upplifun á vefsíðunni. Upplýsingar um vafrakökur eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðuna og hjálpa vefsíðunni að skilja hvaða hlutar vefsíðunnar þér finnst áhugaverðastir og gagnlegastir.

Nauðsynlegar vafrakökur

Nauðsynlegt vafraköku ætti að vera virkt á öllum tímum svo að við getum vistað stillingar þínar fyrir vafrakökur.