Góð spurning
Er eitthvað til sem heitir einhverfu burnout, er þetta ekki bara það sama og venjulegt burnout? Ég verð reyndar að viðurkenna að ég hef aðeins almenna þekkingu á „hefðbundnu“ burnout og hef ekki farið út í að lesa fræðigreinar sérstaklega um burnout eða hver fræðileg skilgreiningin er. Mig langar líka að undirstrika að ég er ekki að segja að ein gerð af burnout sé verri en hin né gera lítið úr hefðbundnu burnout, bara að þetta sé ólíkt en samt líka líkt á ákveðinn hátt.
Hvort sem burnout er einhverfu burnout eða ekki þá er minn skilningur á burnout í stuttu máli sagt svona: Þrot á þeirri orku sem einstaklingur þarf til að komast í gegnum daglegt líf, þar sem líkaminn nær ekki að safna orku á venjulegan hátt til dæmis í gegnum nætursvefn og hefðbundna hvíld. Ofsaþreyta, síðþreyta, áhugaleysi, depurð og uppgjöf eru m.a. lýsandi orð í burnout.
Áður en ég uppgötvaði í sumar að staðurinn sem ég væri stödd á hefði þetta sérstaka nafn þá vissi ég ekki að þetta væri virkilega til, að það væri eitthvað til sem héti einhverfu burnout. Ég hafði aldrei heyrt þetta nefnt áður.
En er burnout ekki bara burnout?
Það er nefnilega ekki alveg þannig því að einhverfu burnout er talsvert frábrugðið „hefðbundnu“ burnout á margan hátt. Það sem er ólíkt við einhverfu burnout eru atriðin sem orsaka þrot á orku og hvað hamlar því að ná að hlaða batteríin. Nokkur af þessum atriðum hjá mér eru:
- lífið
- upplýsingaáreiti
- hljóð
- birta
- lykt
- snerting
- samfélag
- ákvarðanir
Þar sem álagsatriðin eru öðruvísi þá eru leiðirnar út úr álaginu og því sem orsakar streituna einnig öðruvísi.
Mig er búið að langa að fara út úr lífinu, út úr öllu áreitinu, heyra ekkert, sjá ekkert, upplifa ekkert, finna enga lykt, ekki hitta neinn, ekki að tala við neinn, fá að vera alein í mínum heimi til að ná raunverulegri hvíld og ná að hlaða batteríin. Eins og sá sem er í burnout út af vinnunni getur farið út úr þeim aðstæðum til að hlúa að sér með því að fá frí frá vinnunni eða breyta um starf. Þannig vildi ég fá frí frá lífinu og áreitinu sem lífinu fylgir, en það er svolítið flóknara.
Lífið er áreiti og ég veit ekki hvernig ég get farið út úr lífinu og fengið frí frá lífinu til þess að ná að hlaða batteríin og koma svo hægt og rólega aftur inn í lífið og alla þessa skynjun aftur. Eins og sá sem fær frí frá vinnu til að ná heilsu og fer svo hægt og rólega aftur út á vinnumarkaðinn.
Litlar upplýsingar
Ég hef ekki orðið vör við miklar upplýsingar á íslensku um einhverfu burnout en ég held að það sé samt afar mikilvægt að fjallað sé um þetta geðheilsu vandamál. Í sumar fann ég þó podcast þátt hjá þeim stöllum í Ráfað um rófið* sem heitir „Ertu Tesla?“ Þessi fyrirsögn vakti forvitni hjá mér því ég vissi ekkert hver pælingin væri á bak við þennan titil, en þarna ræða þær m.a. um burnout.
Samlíking: Fullhlaðin Tesla er geggjaður bíll með fullt af spennandi tæknibúnaði sem „getu nánast allt“, EN ef rafhlaðan er tóm þá virkar ekkert, þó hann líti kannski ennþá vel út utan frá þá er þetta samt bara málmhlutur sem gerir EKKERT.
Mér finnst þetta vera fullkomin samlíking á þessum flotta rafmagnsbíl og einhverfu burnout. Einstaklingur sem getur venjulega gert margt og mikið, EN ef rafhlaðan er tóm þá er þetta eins og hjá Teslunni að getan verður engin og einstaklingurinn getur ekki gert það sem hann gat áður.
Mín upplifun af einhverfu burnout er einfaldlega að rafhlaðan er galtóm og ég veit ekki hvernig eða hvort ég fái fulla hleðslu aftur. Bara að fá smá hleðslu er bæði erfitt og flókið og þessi litla orka sem næst er fljót að fara.
*Fyrir þá sem ekki vita þá er Ráfað um rófið podcast rás þar sem Eva Ágústa Aradóttir og Guðlaug Svala Kristjánsdóttir ráfa um einhverfurófið og ég mæli algjörlega með því að hlusta á þær.
Ég verð að taka fram að ég veit að íslenska orðið yfir burnout er kulnun, en einhvern veginn tengi ég miklu meira við orðið burnout. Orðið kulnun finnst mér vera eins og glóð sem slökknaði hefur í, en burnout (sem ég myndi sjálf þýða sem útbrunnin) er þegar búið er að brenna alla orkuna sem til var og þess vegna slökknar á öllu. Þannig að þó svo að ég kjósi oftast að nota íslensk orð þá gengur það bara ekki alveg upp í þessu tilfelli.