Hvað segirðu?
Hvernig hefurðu það?
Hvað er að frétta?
Ég þoli ekki þessar spurningar, því mér finnst þær bæði flóknar og erfiðar. Sérstaklega núna þegar það er orðið frekar langt síðan ég hef getað svarað því á jákvæðan hátt hvernig mér líður, þá eru þessar spurningar miklu erfiðari.
Ég veit að oftast eru þessar spurningar bara lengri útgáfa af „halló“ og ekki verið að spyrja hvernig mér líður í raun og veru, en þetta eru samt spurningar um það hver staðan hjá manni sé.
Þegar ég fæ svona spurningu, þá poppa þessar spurningar sjálfkrafa upp í hausnum á mér ásamt örugglega 100 í viðbót:
Hvernig á ég að svara? Hvernig er rétt að svara? Hvernig á ég að orða svarið? Hvernig líður mér í raun? Líður mér allt í lagi þannig að ég get sagt orðið „fínt“ án þess að vera að ljúga? Er verið að spyrja mig hvernig mér líður í raun og veru? Er verið að spyrja hvernig mér líður líkamlega? Er verið að spyrja mig hvernig mér líður andlega? Er þetta náin aðili sem þekkir mig vel sem er að spyrja? Er þetta kunningi sem ég þekki lítið? Hefur manneskjan virkilega áhuga á því hvernig mér líður? Veit þessi aðili að ég er að glíma við ansi margt akkúrat núna? Á ég að ljúga og segja „fínt“? Get ég orðað þetta þannig að það sé ekki augljóst að ég sé að ljúga? Er nóg að segja bara orðið „fínt“ eða er ætlast til að ég setji þetta upp í heila setningu? Á ég að segja satt og segja að ég hafi það skítt? Hversu nákvæmt þarf svarið að vera? Er ég dónaleg ef ég segi satt? Eða er ég dónaleg ef ég segi ekki satt? Er ætlast til þess að svarið sé bara á ákveðinn hátt? Ef ég segi satt, á ég þá að segja það í einu orði eða með útskýringum? Og hversu miklar eiga þá útskýringarnar að vera? Ef ég segi að ég hafi það skítt, er ég þá að opna á fleiri spurningar um það? Á ég að svara miðað við að þetta verði lengri samræður um líðanina?
Á þessu augabragði sem ég er spurð þá er ætlast til þess að svarið komi fljótt. Það er ekki eins og ég hafi einhvern umhugsunartíma og geti sagt „bíddu aðeins“ á meðan ég fer yfir öll atriðin í hausnum á mér til að finna réttasta svarið.
Hér er myndband frá Paul (Autism From The Inside) akkúrat um þetta og það var góð tilfinning að heyra hjá honum að ég er ekki ein að kljást við þessar spurningar?