Ég er einhverf
Núna í byrjun sumars, rúmlega ári eftir að ég fékk einhverfugreininguna staðfesta var allt í rúst hjá mér og ég komin á hættulegan stað þar sem ég sá enga útgönguleið. Ég bað lækninn minn um að laga mig því ég gæti þetta ekki lengur.
Eftir að hafa verið brotin á botninum í ca. mánuð þar sem ég komst varla fram úr rúmin þá allt í einu fattaði ég að þessi staður sem ég var á hefur nafn, einhverfu burnout.
Það er eiginlega eins og það sé búið að taka mig heilt ár að meðtaka það að ég sé raunverulega einhverf.
Frá hvaða sjónarhorni?
Í sumar er ég búin að lesa um, hlusta á og horfa á mjög mikið um einhverfu og þá helst þar sem einhverfir hafa tjáð sig um einhverfu frekar en það sem læknar/sérfræðingar/fræðimenn sem eru ekki einhverfir segja um einhverfu. Því það sem óeinhverf manneskja segir um einhverfu er í raun sú mynd sem hún sér af einhverfu og hennar túlkun á því sem hún sér. Óeinhverf manneskja getur ekki raunverulega upplifað hvernig er að vera einhverf manneskja. Þar af leiðandi er munur á því þegar einhverf manneskja talar um einhverfu og þegar óeinhverf manneskja talar um einhverfu.
Upphafði að þessari síðu
Í framhaldi af öllu þessu sem ég hef lært um einhverfu þá ákvað ég að búa til þessa síðu því mig langar að deila minni upplifun af því að vera einhverf manneskja (sem greinist á fullorðinsárum) og deila því sem mér hefur fundist hjálplegt, með það í huga að kannski geti þetta gagnast öðrum einhverfum en ekki síður að fræða aðra sem ekki eru einhverfir með von um tillitsemi gagnvart einhverfu.