AuDHD

ADHD haus
AuDHD stendur fyrir Autism + ADHD

Það er frekar algengt að einhverfir glími einnig við ADHD (athyglisbrest og ofvirkni). Sjálf fékk ég ADHD greiningu u.þ.b. ári áður en ég uppgötvaði að ég væri einhverf. Á heimasíðunni Embrace Autism kemur fram að 60-70% einhverfra barna og unglinga séu einnig að glíma við ADHD.

Eins og með einhverfu, þá kemur ADHD oft öðruvísi fram hjá stelpum og strákum. Þar sem einkennin eru í mörgum tilfellum ekki eins augljós hjá stelpum þá greinast þær oft seinna en strákar, alveg eins og með einhverfuna. Á heimasíðu ADHD samtakanna kemur fram að 5-10% barna og unglinga glími við ofvirkni og að hlutföll á milli kynjanna séu, þrír strákar á móti hverri stelpu, en að nýjar rannsóknir bendi samt til að fleiri stelpur glími við ADHD en áður hafi verið talið.

Þó svo að tölurnar hér að ofan séu miðaðar við börn og unglinga, þá er það samt ekki þannig ADHD hverfi bara þegar einstaklingur nær ákveðnum aldri, það er frekar að einkennin verði ósýnilegri fyrir öðrum. Það eru margir sem fá greiningu á fullorðins árum, en þeir hafa samt glímt við ADHD frá því í bernsku (þar á meðal ég).

Fordómar

Það eru því miður talsverðir fordómar í gangi gagnvart ADHD og þá sérstaklega ADHD lyfjum. Mörgum finnst eins og það séu „allir“ að fá greiningu og gefa í skyn að það sé verið að „ofgreina“ ADHD. Ég er mjög ósammála því að það sé verið að „ofgreina“ og mín tilfinning gagnvart þessu er tvískipt (þessi atriði eiga í raun líka við um einhverfu).

Jákvæða hliðin
Meiri vitund fyrir því að það séu ástæður á bak við vandamálin og með því að finna orsökin þá sé frekar hægt að hjálpa. Þegar barni gengur t.d. illa í skóla þá sé reynt að finna út af hverju barninu gengur illa (í þeim tilgangi að hjálpa barninu). Í stað þess að afgreiða málið með því að setja barnið í tossabekk, eins og var oft gert hér áður fyrr, en þá var í raun verið að gefa í skyn að barnið væri bara lélegur nemandi og þar af leiðandi ekkert hægt að gera.

Neikvæða hliðin
Á sama tíma finnst mér oft eins og „normal“ boxið sé að þrengjast. Sem kemur kannski m.a. út frá samfélagsmiðlum og hversu auðvelt það sé orðið að fela sannleikann með tækninni.

Sjálf hélt ég alltaf að ég væri lélegur nemandi og að mín vandamál væru mér að kenna. Ég vissi ekki annað en að allir upplifðu heiminn á sama hátt og ég gerði, en hinir væru bara flinkari en ég og gátu bara höndlað þetta allt.

Núna veit ég hins vegar að stór hluti minna vandamála í skóla komu út frá því að heilinn hjá mér virkar bara aðeins öðruvísi, þannig að aðferðirnar sem voru notaðar hentuðu mér ekki, þó þær hefðu hentað flestum öðrum.

Það er samt ekki þannig að ég vilji bara kenna öðrum um. Heldur tel ég að vanþekking komi í veg fyrir eða takmarki sveigjanleika, gagnvart mismunandi þörfum einstaklinga sem passa ekki inn í „normal“ boxið.

Eins fyrir alla, bara 2 á mann
Myndband frá ADHD samtökunum

Myndbandið hér að neðan er frá ADHD samtökunum. Mér finnst þetta ótrúlega flott myndband því þetta er eiginlega nákvæmlega eins og ég upplifði í skólastofunni.

Meðferðaraðili sem ég er hjá benti mér á þetta myndband í framhaldi af því að ég var að útskýra hvernig mér fyndist eins og heilinn á mér væri ekki með neina síu. Ég skrifaði m.a. eftirfarandi texta (áður en ég sá myndbandið) í þeim tilgangi að útskýra mína upplifun á síuleysinu í heilanum:

Það fara einhvern veginn öll hljóð inn og það er allt sem truflar. Til þess að ég geti einbeitt mér þá þarf ég að útiloka hljóðin á einhvern annan hátt, eins og með heyrnatólum, halda fyrir eyrun, loka mig inn í herbergi og svo framvegis. Heilinn minn getur ekki sjálfur síað þessi umhverfishljóð frá. Ég held að þetta hafi alltaf verið svona, allavega man ég hvað það var erfitt að vera í skólastofu að reyna að vinna verkefni eða í prófi því það voru alltaf einhver hljóð sem trufluðu og ég held að t.d. stór hluti próftíma hafi alltaf farið bara í það að reyna að ná einbeitingunni aftur og aftur, ég man eftir að hafa þurft að lesa sömu spurningarnar aftur og aftur og aftur.

Ég vildi að þetta myndband hefði verið til þegar ég var í barnaskóla. En að sjá þetta núna er hjálplegt í því að sýna sjálfri mér meira mildi, sérstaklega þegar ég hugsa til bernskunnar. Skólagangan var mér mjög erfið, en fyrir utan einhverfu og ADHD þá glími ég líka við lesblindu.

Ofvirkni

Hjá mér kemur ofvirknin mest fram í heilanum á mér, þó ekki eingöngu. Mér finnst best að líkja þessu við það að poppa í potti. Það er nauðsynlegt að hafa lok á pottinum því annars skýst poppið út um allt. Það má ekki setja of mikið af poppbaunum í einu ef maður vill hafa einhverja stjórn og það er líka nauðsynlegt að fylgjast vel með hitanum og tímanum því annars getur allt brunnið og orðið óætt. Þetta er eiginlega alveg eins í heilanum á mér, en ég er samt ekki með neitt pottlok til að halda þessu í skefjum. Ég þarf að reyna á einhvern hátt að takmarka magnið sem er í gangi í einu, á sama tíma þarf ég að fara varlega því annars getur allt brunnið mjög auðveldlega.

Nýjar hugmyndir poppa inn endalaust og án þess að ég hafi nokkra stjórn á, þær koma stundum svo hratt að ég næ varla að meðtaka hverja hugmynd og hvað þá að koma þeim í orð. Hér eru tvö dæmi:

1. Það er venjulegt fyrir mig að vera með yfir 100 flipa (tabs) opna í vafranum hjá mér í einu og ég er að skoða/vinna í þeim öllum í einu. Það er ekkert óvenjulegt að ég sé jafnvel með ennþá fleiri og ég man að einu sinni tók ég eftir því að það voru 360 flipar opnir í einu og hver einasti var mikilvægur, þar af leiðandi var athyglin hjá mér á þessum 360 hlutum í einu.

2. Einu sinni tók ég eftir því að það vantaði ákveðna mynd inn á heimasíðu hjá mér og ég ákvað að lagfæra það. Nokkrum klukkutímum seinna ranka ég allt í einu við mér þar sem ég er komin á kaf í að endurhanna alla heimasíðuna upp á nýtt, í stað þess að setja bara inn eina mynd sem hefði tekið mig innan við eina mínútu, en myndin var ekki ennþá komin inn.

Það kemur einhvern veginn alltaf ný og ný hugmynd um eitthvað sem þarf að laga eða gera betur. Næstum eins og það sem ég geri fari alltaf undir sterkara og sterkara stækkunargler. Stundum hefur mér verið bent á að ég sé smámunasöm eða með fullkomnunaráráttu, því að ég sé að lagfæra eitthvað sem enginn annar sér, en atriðið truflar mig samt svo mikið og ég sé ekkert annað.

Hér á þessari síðu kemur þetta fram m.a. þannig að ég fæ nýjar og nýjar hugmyndir um efni sem mig langar að skrifa um, en hugmyndirnar eru svo margar og þær koma svo hratt að þær trufla mig í því sem ég er að reyna að klára að skrifa. Þó ég reyni eins og ég geti að halda þessu einhvern veginn í skefjum og punkta bara hjá mér nýjar hugmyndir á öðrum stað, þá er ég samt með 32 nýjar færslur sem ég er að vinna í, en það er fyrir utan hugmyndirnar sem ég hef punktað hjá mér á öðrum stað.

Sumir gætu hugsað að þetta sé nú bara kostur að fá svona mikið af hugmyndum, sem það getur jú alveg verið þegar maður er t.d. að reyna að finna lausn á einhverju vandamáli. En þegar maður er að vinna í ákveðnu verkefni þá geta nýju hugmyndirnar verið mjög truflandi og komið í veg fyrir að maður nái að klára nokkurn skapaðan hlut, því að athyglin er alltaf út um allt og nýju hugmyndirnar geta verið mjög spennandi.

Hausinn fer líka sjálfkrafa að reyna að finna lausnir á vandamálum sem koma mér ekkert við og tengist það líka síuleysinu. Ef ég er t.d. úti í búð og heyri ókunnugt fólk tala um eitthvað vandamál, þá fer hausinn á mér sjálfkrafa í lausnavinnu. Mig hefur meira að segja dreymt lausn á vandamáli sem ég heyrði frá fólki sem ég þekki ekki.

Og það er ekki eins og ég geti bara slökkt á þessu og kveikt aftur þegar mér hentar, en það væri reyndar geggjað að geta gert það.

Út frá þessu útskýrist kannski hvers vegna lotukerfi í skóla gæti hentað betur fyrir ADHD börn, ég held allavega að lotukerfi hefði hentað mér betur. Í lotukerfi eru færri fög kennd í einu og hver lota er stutt. Námsefni sem er deilt niður á heila önn í venjulegu kerfi, er þjappað saman og klárað á t.d. þremur vikum, áður en ný lota byrjar með nýjum fögum.

Athyglisbrestur

Eftir að ég fékk að vita að ég væri með ADHD, þá hefur þetta orð „athyglisbrestur“ alltaf trufla mig. Ástæðan er sú að mér finnst þetta vera meira þannig að athyglin er út um allt því að heilinn getur ekki síað neitt sjálfkrafa frá (eins og athyglin sé ofvirk), alveg eins og í myndbandinu hér að ofan. Ég myndi því frekar kalla þetta einbeitingarbrestur þar sem ég næ ekki að halda einbeitingunni því athyglin er út um allt.

Mér finnst ég ekki geta greint á milli hvar ofvirknin endar og hvar einbeitingarbresturinn byrjar, því þetta fléttast bara saman. Á sama hátt get ég ekki sagt hvar einhverfan endar og ADHD byrjar, því það fléttast líka saman.

Fordómar gagnvart ADHD lyfjum

Mér finnst erfitt að viðurkenna að ég sé á ADHD lyfjum og er það vegna fordómanna. Fólk gefur sér leifi til að gagnrýna þessi lyf, oft án þess að vita hvernig það sé að glíma við ADHD. Þetta er bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, frá áhrifavöldum, almenningi og fólki sem ég þekki. En þar sem ég er hér á þessari síðu að vinna gegn fordómum og vinna í því að standa með sjálfri mér, með því að vera m.a. hreinskilin, þá ætla ég ekki að fela það að ég sé á ADHD lyfjum og lyfið sem ég er á heitir Elvanse.

Ég upplifi þessa fordóma ekki á sama hátt og fordómana gagnvart þunglyndislyfjum, heldur eins og þeir séu beittari og grimmari gagnvart ADHD lyfjum. Fordómarnir gagnvart þunglyndislyfjum finnst mér vera meira tengt þunglyndinu sjálfu og að þetta sé aumingjaskapur, en gagnvart m.a. Elvanse þá sé eins og ég sé að gera eitthvað af mér.

Áður en ég byrjaði á ADHD lyfjum þá vissi ég ekki af fordómunum gagnvart þessum lyfjum, en í framhaldi af öllum umræðunum sem voru í gangi fyrir u.þ.b. 2 árum síðan þá leið mér eins og ég þyrfti að fela og skammast mín fyrir að taka þessi lyf. Það var samt ekki þannig að ég hafi verið að auglýsa það eitthvað að ég væri á ADHD lyfjum.

Þetta kom m.a. þannig út að ég fékk mikinn kvíða sem tengdist því að fara í apótekið og leysa út lyfin. Í apótekinu þarf maður að segja upphátt hvað lyfið heitir, ef maður er með fleiri en einn lyfseðil í gáttinni og það orsakaði hræðslu við það að vera dæmd ef einhver heyrði hvað ég sagði, en ég var líka hrædd við að starfsfólkið myndi dæma mig. Ég vil samt taka það fram að ég hef ekki upplifað að hafa verið dæmd í apótekinu, heldur var þetta hræðslan við að vera dæmd. Þessi hræðsla kemur væntanlega í framhaldi af því að hafa oft verið dæmd fyrir eitthvað sem ég réð ekki við í bernsku (t.d. lesblinduna í skóla).

Hvað gera ADHD lyf fyrir mig?

Þegar ég byrjaði á Elvanse þá fann ég mikinn mun til hins betra. Ég held ég hafi aldrei áður fundið svona afgerandi mun við að byrja á einhverju lyfi sem flokkast sem tauga- og geðlyf, þó ég hafi prófað ansi mörg mismunandi þunglyndis- og kvíðalyf í gegnum tíðina. En Elvanse var öðruvísi því það var svo augljóst hvernig það var að hjálpa. Það var eins og það rofaði aðeins til í hausnum á mér á þann hátt að ég réði betur við kraðakið í hausnum.

Út frá samlíkingunni við að poppa hér að ofan, þá virkar Elvanse eiginlega eins og stórt og teygjanlegt net yfir pottinn, þannig að þó að netið sé stórt og gefi eftir þá heldur það samt einhverju í skefjum. Það er líka eins og hitastigið í pottinum hafi lækkað og að magnið sé viðráðanlegra.

Eftir að ég byrjaði á Elvanse þá upplifði ég í fyrsta skipti þögn í hausnum á mér, ég held allavega að þetta hafi verið í fyrsta skipti. Þetta var svolítið furðuleg upplifun en á sama tíma fann ég fyrir svo miklum létti. Til að varast misskilning þá verð ég að nefna að þessi þögn er ekki á neinn hátt tengt því sem ég fjallaði um í færslunni Tómur heili.

Það er því sárt þegar fólk leyfir sér að gagnrýna þessi lyf án þess að vita í raun hvað þau geta hjálpað mikið, en það er fleira sem Elvanse hefur gert fyrir mig sem ég treysti mér samt ekki að birta hérna núna.

Viltu fá tilkynningar um nýjar færslur?

Skráð netfangið þitt hér og þú færð sendan tölupóst þegar nýjar færslur bætast inn á síðuna.

Tilkynningar eru sendar u.þ.b. 1-2 í mánuði en ekki þegar hver stök færsla kemur inn.

Takk fyrir skráninguna

Þú færð sendan tölvupóst þar sem þú þarft að staðfesta netfangið þitt.

ATH! pósturinn getur lent í ruslpósti.

Yfirlit
Einhverf panda

Þessi vefsíða notar vafrakökur svo að hægt sé að veita þér betri upplifun á vefsíðunni. Upplýsingar um vafrakökur eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðuna og hjálpa vefsíðunni að skilja hvaða hlutar vefsíðunnar þér finnst áhugaverðastir og gagnlegastir.

Nauðsynlegar vafrakökur

Nauðsynlegt vafraköku ætti að vera virkt á öllum tímum svo að við getum vistað stillingar þínar fyrir vafrakökur.