Í sjónvarpsþáttunum Atipycal sem ég hef sagt hér frá áður þá er atriði í einum þættinum þar sem Sam endurtekur orð sem hann heyrði, ég man ekki hvaða orð þetta var eða í hvaða þætti en það kannski skiptir ekki öllu máli. En Sam endurtekur orðið aftur og aftur og aftur.
Mínar endurtekningar
Hjá mér gerist stundum svolítið svipað en ég endurtek ekki orð upphátt heldur í hausnum á mér. Þetta geta verið stök orð, stuttar setningar eða orðatiltæki. Þetta er held ég alltaf eitthvað sem ég heyri en ekki bara eitthvað sem kemur út frá hugsun, kannski kemur þetta líka út frá einhverju sem ég les en ég er samt ekki alveg viss. Endurtekningin gerist aftur og aftur og aftur. Ég hef ekki hugmynd um af hverju þetta gerist, en kannski heillast heilinn á mér af orðinu á einhvern hátt eða er að reyna að ná dýpri skilning á orðinu eða orðunum. Þetta eru held ég alltaf orð sem eru frekar óalgeng en hafa oft djúpa merkingu og þetta eru ekki einföld orð eins og hús eða bíll. Ég hef svo sem aldrei spáð eitthvað mikið í þessu og ég hef ekki tekið eftir neinu munstri sem orsakar þessa endurtekningu, þetta bara gerist einhvern veginn. En þegar ég sá þennan þátt þar sem Sam endurtók aftur og aftur stakt orð sem hann heyrði og það var eins og hann varð bara að segja orðið, þá tengdi ég við þessa endurtekningu í hausnum á mér, því hausinn verður að hugsa þetta orð aftur og aftur og aftur. Tilfinningin er að þetta veiti kannski heilanum ró á einhvern hátt, en ég get ekki alveg útskýrt hvers vegna eða á hvaða hátt, það er bara tilfinningin.
Kannski gera þetta allir, en ég veit ekkert um það. Ég man samt ekki eftir því að hafa heyrt neinn tala um svona endurtekningar, þannig að ég held þetta tengist einhverfunni.
En allavega þá er svona endurtekning í gangi í hausnum á mér núna sem heilinn endurtekur aftur og aftur og í þetta skiptið eru það þessi orð: „the placebo effect“.