Matur sem heyrist í

Matur sem heyrist í

Þegar ég var lítil þá notaði ég stundum þessi orð „matur sem heyrist í“ og það var í þeim tilgangi að reyna að útskýra hvers vegna ég ætti erfitt með að borða ákveðinn mat.

Ég man eftir að einhverjir gerðu grín að þessu og spurðu hvort ég borðaði þá ekki kjöt, því að dýr gefa frá sér hljóð. Það var samt alls ekki það sem ég átti við, ég borðaði alveg kjöt og fannst flest kjöt mjög gott. Ég vissi bara ekki hvernig ég átti að útskýra þetta öðruvísi því þetta var það sem ég upplifði.

Hvað er matur sem heyrist í?

Matur sem heyrist í er t.d. ferskt grænmeti eins og gúrka, kál og paprika, þetta er matur sem heyrist brak í þegar maður tyggur hann. En þetta átti bara við þegar svona brakandi matur var með einhverju öðru eða blandað saman við annan mat. Það var t.d. ekkert mál fyrir mig að borða ferska gúrku eina og sér og mér fannst gúrka góð á bragðið og finnst ennþá, en gúrka ofan á brauð var eitthvað sem mér fannst hræðilegt. Ég man ekki hvenær ég komst yfir þetta og gat borðað mat sem heyrist í með öðrum mat án vandamála, en ég er samt ennþá mjög meðvituð um það þegar ég borða eitthvað sem heyrist í. Það eru bara nokkur ár síðan ég ákvað að prófa að smakka brauð með gúrku og fannst það mjög bragðgott, en þá réð ég við brakið sem heyrðist.

Ég hef aldrei heyrt neinn annan tala um svona hljóð vandamál í tengslum við mat, þannig að þetta var bara eitt af því sem ég upplifið sem skrítið hjá mér miðað við aðra.

Algengir erfiðleikar

Það er algengt að einhverf börn eigi erfitt með ýmislegt tengt mat eins og t.d. að allt þurfi að vera aðskilið á disknum og megi jafnvel ekki snertast, eða eigi erfitt með ákveðna áferð á mat. Ég man að mér fannst gott að hafa matinn aðskilinn á disknum en ég man samt ekki hvort maturinn mátti snertast eða ekki. Allavega fannst mér best að borða bara eina tegund í einu. Réttir þar sem öllu var blandað saman voru erfiðir, eins og t.d. pottréttir og ofnréttir. Ég man líka að hamborgari með gúrku og salati var hræðilegur, en ef gúrkan og salatið hefði verið sér til hliðar þá hefði þetta ekki verið neitt vandamál og ég hefði borðað allt.

Svona vandamál sem tengjast mat eru oft túlkuð sem matvendni og eingöngu út frá því hvernig maturinn bragðast, en hjá einhverfum börnum er oft önnur skynjun sem spilar þarna inn í, eins og áferðin á matnum og í mínu tilfelli hljóðin í matnum.

Viltu fá tilkynningar um nýjar færslur?

Skráð netfangið þitt hér og þú færð sendan tölupóst þegar nýjar færslur bætast inn á síðuna.

Tilkynningar eru sendar u.þ.b. 1-2 í mánuði en ekki þegar hver stök færsla kemur inn.

Takk fyrir skráninguna

Þú færð sendan tölvupóst þar sem þú þarft að staðfesta netfangið þitt.

ATH! pósturinn getur lent í ruslpósti.

Yfirlit
Einhverf panda

Þessi vefsíða notar vafrakökur svo að hægt sé að veita þér betri upplifun á vefsíðunni. Upplýsingar um vafrakökur eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðuna og hjálpa vefsíðunni að skilja hvaða hlutar vefsíðunnar þér finnst áhugaverðastir og gagnlegastir.

Nauðsynlegar vafrakökur

Nauðsynlegt vafraköku ætti að vera virkt á öllum tímum svo að við getum vistað stillingar þínar fyrir vafrakökur.