Tómur heili

Tómur heili
Yfirkeyrt taugakerfi

Stundum gerist það hjá mér að ég er í einhverjum aðstæðum þar sem er mikið álag á taugakerfið, í gegnum tilfinningar og/eða skynjunaráreiti. Það getur verið t.d. í viðtalstíma hjá meðferðaraðila, í matarboði, í verslunarmiðstöð eða í einhverjum allt öðrum aðstæðum. Að þá verður hausinn allt í einu bara tómur. Ég reyni eins og ég get að hugsa og finna orðin sem ég ætla að segja en ég finn engin orð, það er nánast eins og hausinn á mér sé á móti mér og ég ræð ekki við hann. Ég finn fullt af tilfinningum og ég finn í tilfinningum hvað það er sem ég ætlaði að tjá mig um eða mig langar að tjá mig um, en af því að hausinn er tómur þá get ég ekki komið þessum tilfinningum í orð.

Ég hef svo sem ekki mikið spáð í af hverju þetta gerist en þetta hefur verið að gerast í erfiðum aðstæðum frá því ég man eftir mér. Stundum þegar þetta gerist þá fer ég að reyna að afsaka mig á einhvern hátt. Og einhverra hluta vegna þarf ég ekki að finna þau orð í heilanum, þau koma bara sjálfkrafa, kannski af því að ég er svo vön að vera að afsaka mig, bæði fyrir öðrum og fyrir mér sjálfri.

Hvirfilbylur af orðum

Stundum gerist það að ég er að reyna að segja eitthvað en finn ekki réttu orðin til að nota. Þá finnst mér eins og það sé hvirfilbylur af orðum inn í hausnum á mér og ég þarf að ná að grípa réttu orðin, á réttum tíma og í réttri röð, til að geta myndað skiljanlega setningu. Þetta gerist líka þegar taugakerfið er í álagi. Þessi orða hvirfilbylur tekur mikla orku og oft næ ég hreinlega ekki að segja það sem mig langar að segja, þó svo að heilinn sé samt ekki tómur. Í þessum aðstæðum þá fer ég líka oft að afsaka mig og afsökunar orðin tilheyra ekki hvirfilbylnum.

Ég veit ekki alveg hvort þetta sé það sama eða orsakirnar séu þær sömu, en það gæti verið. Aðstæðurnar eru allavega svipaðar, en tómi heilinn kemur samt í verri aðstæðum og í meira álagi.

En allavega þá var ég að lesa mér til um IFS (Internal Family Systems) og einhverfu og rakst þá á þessa setningu á erlendri heimasíðu sem sérhæfir sig í meðferðum fyrir einhverfa einstaklinga:

I was unable to access any part and my brain just felt drained and blank. It turned out to not be a part, but just an overworked brain who needed a break. This can be a common experience for an Autistic brain, especially if you’re in or recovering from burn out.

Ég hafði ekki heyrt þessu lýst svona áður, en ég tengdi strax við þetta, því heilinn á mér verður bara tómur. Kannski tengdi ég líka við þessa setningu af því að burnaout er nefnt þarna.

„Shutdown“ / lokun

Í framhaldinu mundi ég eftir því að hafa lesið um „shutdown“/lokun í bæklingi Einhverfusamtakanna og þar stendur þetta:

Þegar áreiti verður yfirþyrmandi getur komið upp ástand sem annars vegar er kallað „shutdown“ / lokun og hins vegar „meltdown“ / bráðnun.

Það fyrrnefnda líkist því þegar tölva frýs, við nánast lokumst inni í sjálfum okkur og getum oft ekki tjáð okkur eins og venjulega.

Þegar þetta hefur gerst þá hef ég aldrei tengt þessa upplifun við einhverfuna eða fattað að þetta væri það sem kallaðist lokun eða shutdown hjá einhverfum. Ég hef alltaf bara kennt mér um að vera með lélegan heila, að ég gæti ekki einbeitt mér nógu vel eða það væri eitthvað að mér.

Mjög stór uppgötvun

Þetta er mjög stór uppgötvun fyrir mig, því ég á svo margar minningar frá því þegar ég var í grunnskóla (og reyndar líka í framhaldsskóla) og þetta gerðist. Þá var ég í aðstæðum sem voru yfirþyrmandi fyrir mig og ég fór í panik. Sem orsakaði að heilinn varð tómur þegar ég virkilega þurfti á heilanum að halda, sem gerði aðstæðurnar og upplifunina ennþá verri. Ég túlkaði þetta alltaf þannig að ég væri bara lélegur nemandi (þetta hafði líka áhrif á einkunnirnar mínar) og þetta væri allt mér að kenna því ég væri gölluð.

Þarna er því komin enn ein ástæðan fyrir því að ég hefði viljað vita að ég væri einhverf þegar ég var í skóla. En núna veit ég allavega að þetta er einhvers konar varnarviðbragð einhverfa heilans míns þegar álagið verður of mikið á taugakerfið og því kannski best að reyna á einhvern hátt að sýna þessu mildi.

Viltu fá tilkynningar um nýjar færslur?

Skráð netfangið þitt hér og þú færð sendan tölupóst þegar nýjar færslur bætast inn á síðuna.

Tilkynningar eru sendar u.þ.b. 1-2 í mánuði en ekki þegar hver stök færsla kemur inn.

Takk fyrir skráninguna

Þú færð sendan tölvupóst þar sem þú þarft að staðfesta netfangið þitt.

ATH! pósturinn getur lent í ruslpósti.

Yfirlit
Einhverf panda

Þessi vefsíða notar vafrakökur svo að hægt sé að veita þér betri upplifun á vefsíðunni. Upplýsingar um vafrakökur eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðuna og hjálpa vefsíðunni að skilja hvaða hlutar vefsíðunnar þér finnst áhugaverðastir og gagnlegastir.

Nauðsynlegar vafrakökur

Nauðsynlegt vafraköku ætti að vera virkt á öllum tímum svo að við getum vistað stillingar þínar fyrir vafrakökur.