Risa skref
Frá því ég fékk hugmyndina að þessari síðu og byrjaði að setja hana upp eru komnir u.þ.b. 8 mánuðir og ég er núna loksins komin með kjark til að opna hana, eða ég held það allavega.
Ég finn það í líkamanum, í húðinni og neðsta hluta hálsins hvað þetta er samt erfitt. Þó svo að ég ætli ekkert að fara að auglýsa síðuna eitthvað út um allt, þá er þetta ákveðin opinberun og risa stórt skref fyrir mig. Að setja allar þessar persónulegu upplýsingar, um mínar upplifanir, hugsanir og líðan, út í heiminn þannig að hver sem er getur séð mig, ekki sem mynd af mér heldur séð mig án allra grímnanna minna. Þannig að mér finnst ég vera berskjölduð, en ég trúi því samt að þetta muni hjálpa mér á einhvern hátt (annars væri ég jú ekki að gera þetta) því mér finnst ég ekki eiga að þurfa að skammast mín fyrir það að vera einhverf, á sama hátt og óeinhverfir þurfa ekki að skammast sín fyrir að vera óeinhverfir.