Afmælisdagurinn er erfiður
Sannleikurinn er sá að mér finnst afmælisdagurinn minn alltaf vera erfiður. Það er samt alls ekki það að mér finnist eitthvað slæmt að eldast, því mér finnst fínt að eldast. Núna er ég orðin 47 ára og er bara stolt af því að hafa komist í gegnum öll þessi ár. Ég hef aldrei skammast mín á nokkurn hátt fyrir minn aldur, enda er aldur eitthvað sem enginn stjórnar og allir í heiminum eldast um eitt ár á hverju einasta ári. Ég myndi alls ekki vilja vera 25 ára aftur, því þá væri ég ekki búin að komast hingað sem ég er komin núna.
Það sem mér finnst erfitt er að mér finnst eins og það séu einhverjar kvaðir til mín á þessum degi, eins og ég eigi að gera eitthvað sem mig langar samt ekki að gera, eða ég eigi að vera á einhvern hátt sem ég veit ekki alveg hver er.
Ég hef ekki áhuga á að halda einhvers konar veislu, enda eru veislur alltaf mjög erfiðar fyrir mig, en þetta er samt sem áður ein af þessum kvöðum sem ég finn fyrir. Þó svo að það sé enginn að pressa á mig að halda veislu þá er það einhvern veginn það sem er venjan að gera, eða allavega að halda upp á afmælið á einhvern hátt, gera eitthvað sérstakt.
Að fá afmæliskveðjur
Ég veit ekki hvort mér finnist gaman að fá afmæliskveðjur, því þá koma upp þessar sömu tilfinningar um að einhvers sé ætlast til af mér eða eitthvað eigi að vera á einhvern ákveðinn hátt, óháð því hvað ég raunverulega vil eða hreinlega viti hvað það er sem ég vilji.
Mér finnst gaman þegar einhver segir „til hamingju með afmælið“ og mér þykir líka vænt um að heyra þetta (ef það er ekki gert þannig að það veki atygli á mér). Það er hitt sem fylgir á eftir sem veldur mér óþægindum, spurningarnar sem fylgja. Á að halda veislu, hvernig á að halda upp á daginn, hvað á að gera, á að gera eitthvað sérstakt, hvernig er að vera orðin svona gömul.
Þetta er bara venjulegur dagur eins og allir hinir dagarnir og mér þykir vænt um þennan dag á einhvern hátt, en ég veit samt ekki hvort mig langi til að gera eitthvað sérstakt á þessum degi. Ef mig skildi langa að gera eitthvað, er ég þá raunverulega að gera það fyrir mig af því að mig langar að gera það, eða er ég að gera það af því að það er venjan að gera eitthvað sérstakt á afmælisdaginn sinn? Svarið er að ég veit það ekki.
Þegar einhver hringir og óskar mér til hamingju með afmælið þá er nánast undantekningarlaust spurt „hvað á svo að gera í tilefni dagsins?“. Þessi spurning veldur mér flækjum og lágmark 100 nýjar spurningar poppa upp: „Þarf ég að vera að gera eitthvað í tilefni dagsins, hvað er það sem ég á að gera, má ég segja að ég ætli ekki að gera neitt, er ég skrítin að vilja ekki gera eitthvað sérstakt, þarf ég að halda upp á þennan dag, hvernig á ég að svara þessu rétt, mun ég fá fleiri spurningar, er ætlast til þess að ég svari þessu á einhvern ákveðinn hátt, er sá sem spyr að ætlast til einhvers, var ég búin að hugsa um að gera eitthvað sérstakt, verð ég dæmd fyrir það hvernig ég svara, fæ ég fleiri spurningar ef ég svara á ákveðinn hátt, telst það að gera eitthvað sérstakt að ætla að gera ekkert sérstakt“. Þetta er ekki gert meðvitað þannig að ég hugsi þessar spurningar heldur kemur þetta sjálfkrafa í tilfinningalegum spurningum. Og ég veit hreinlega ekkert hvernig ég á að svara, en það er samt ekki þannig að ég geti ýtt á pásu á meðan ég hugsa og finn rétta svarið. Þetta er nátengt öðru sem ég hef skrifað um, „hæ, hvað segirðu?„.
Ég man eftir að hafa fundið fyrir þessum sömu tilfinningum þegar ég var unglingur, þannig að þetta er ekki eitthvað sem er nýtt. Kannski eru þetta tilfinningar sem urðu til þegar ég var krakki eða unglingur og hafa bara fest sig inn í mér, en ekki þroskast né aðlagast breyttum aðstæðum, þó svo að yfir 30 ár séu liðin.
Þetta átti nú bara að vera örstutt færsla, en ég þurfti víst að segja aðeins meira um þetta en ég hélt.
Með því að setja þetta út í loftið, þá er ég held ég að reyna að vinna í þessu, ásamt því að reyna að finna út hver ég er. Til þess að finna lausn á einhverju vandamáli (svar við einhverri spurningu), þá þarf maður oft fyrst að finna hver lausnin er ekki og oft á marga mismunandi vegu, áður en maður getur fundið eða nálgast réttu lausnina.